„Mér finnst þetta alveg afleitt,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, um þau ummæli Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra í morgunútvarpi RÚV í gær, að ekki sé hægt að útiloka meiri skattahækkanir í baráttunni við hallann á rekstri ríkisins á næsta ári.
Sigmundur segir þegar komið í ljós að skattahækkanir í kreppunni hafi ekki skilað þeim tekjum í ríkissjóð sem vonast var eftir, en þess í stað haldið aftur af fjárfestingum.
„En það er líka óvissan sem ríkisstjórnin viðheldur stöðugt,“ segir Sigmundur. Sífellt sé verið að hræra í skattkerfinu og það tvennt sem fyrirtæki sem íhugi fjárfestingar nefni sem hindranir séu óvissa um orku og óvissa um skattkerfið. „Það virðist vera að menn ætli að viðhalda þeirri óvissu og óvissa er verst af öllu,“ segir hann.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að samdrátturinn frá 2008 hafi verið meiri en ella, m.a. vegna skattahækkunarstefnu ríkisstjórnarinnar. Hann segir vel hægt að útiloka frekari hækkanir.