Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hvetur alla Íslendinga til að taka í fyrramálið þátt í einnar mínútu þögn Norðmanna til minningar um fórnarlömb harmleiksins þar í landi á föstudaginn síðasta.
Það verður klukkan 10:00 að íslenskum tíma í fyrramálið, í hádeginu að norskum tíma, sem ákveðið hefur verið að hafa einnar mínútu þögn í öllum Noregi.
„Ísland mun sýna norsku þjóðinni samstöðu með því að hafa einnar mínútu þögn á sama tíma sem er kl. 10:00 í fyrramálið að íslenskum tíma. Forsætisráðherrra hvetur alla Íslendinga til að sýna samhug sinn með þeim hætti,“ segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.