Íslendingar greiða 200,9 milljarða króna í tekjuskatt og útsvar af tekjum síðasta árs samkvæmt álagningarskrá, sem ríkisskattstjóri hefur birt. Er það 1,4% hækkun frá fyrra ári.
Samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu nam tekjuskatts- og útsvarsstofn landsmanna 812,4 milljörðum króna árið 2010 og dróst saman um 0,5% frá fyrra ári. Skattstofnsins var aflað af rúmlega 237 þúsund manns og fjölgaði um 0,6% í þeim hópi. Var hann næstum því jafn fjölmennur og við álagningu 2009.
Heildarfjöldi framteljenda við álagningu árið 2011 var 260.764 og fækkaði annað árið í röð, nú um 672 eða 0,3%. Fjármálaráðuneytið segir, að fækkun framteljenda sé minni í ár en var á fyrra ári en flestir voru framteljendur við álagningu 2009, 267.494 og hefur þeim því fækkað um rúmlega 6700 síðan þá.
Tilkynning fjármálaráðuneytisins