Laun hækka en greiðslur úr lífeyrissjóðum lækka

Laun og starfstengdar greiðslur landsmanna hækkuðu um 10,9 milljarða á síðasta ári en greiðslur úr lífeyrissjóðum lækkuðu um rúma 11,9 milljarða.

Þetta kemur fram á vef ríkisskattstjóra. Þar segir að fyrir ári hafi  greiðslur úr séreignarsjóðum vegið upp á móti lægri launum. Þær séu enn mjög háar en þó mun lægri en í fyrra.

Þá lækki atvinnuleysisbætur einnig en séu enn mun hærri en menn áttu að venjast fyrir hrun efnahagslífsins. 

Heildartekjuskattsstofn er nú 812.448 milljarðar, tæpum 3,9 milljörðum lægri en í fyrra.

Greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins hækkuðu um 1,7 milljarða milli ára og eru sá einstaki tekjuliður sem hækkaði mest. Félagsleg aðstoð sveitarfélaga jókst einnig mikið.

Frádráttarliðir á skattframtölum hækka samtals um 6,7%, eða tæpa 3,6 milljarða. Munar þar mest um nýjan frádrátt vegna átaksins „Allir vinna“, sem er tæplega 1,6 milljarðar. Þeim sem færa frádrátt vegna iðgjalda í séreignarsjóði fækkar um rúm 6%.

Fjármagnstekjur lækka

Fjármagnstekjur lækkuðu þriðja árið í röð og meira en áður eða um tæpa 73 milljarða. Fjármagnstekjur voru 244,2 milljarðar við álagningu árið 2008 en eru nú tæpir 66,3 milljarðar.

Ríkisskattstjóri segir, að söluhagnaður og arðgreiðslur hafi hækkað mikið framan af síðasta áratug en undanfarið hafi dregið mikið úr söluhagnaði sem sé nú um 7,1 milljarður og hafi lækkað um 46,1% frá því í fyrra.

Arðgreiðslur eru nú 12,1 milljarður, eða 70,5% minni en fyrir ári.

Ríkisskattstjóri segir, að það veki athygli að vaxtatekjur af innstæðum í íslenskum bönkum lækki um 39 milljarða, eða 58,4%. Vextir af verðbréfum hækku hins vegar um 17,9%, eða tæpa 1,9 milljarða. Vextir af verðbréfum séu öðrum þræði innleystur söluhagnaður og því gæti hér áhrifa breyttra markaðsaðstæðna, gengis og verðlags. Þá hafi innistæður minnkað en verðbréfaeign aukist.

Vefur ríkisskattstjóra

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert