Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, sagði eftir ríkisstjórnarfund í dag, að ekki hefði verið tekin ákvörðun um hvernig staðið verði að fjármögnun nýs fangelsis á Hólmsheiði.
„Fangelsismálin verða til lykta leidd," sagði Ögmundur og upplýsti að endanleg ákvörðun yrði tekin í ágúst.
Ágreiningur hefur verið innan ríkisstjórnarinnar hvort leita eigi til einkaaðila um fjármögnun og byggingu nýs fangelsis eða hvort fjármagna eigi bygginguna með framlagi ríkisins. Ögmundur hefur lýst sig andvígan einkaframkvæmd og segir að hið opinbera muni fjármagna fangelsið því í fangelsum borgi menn ekki með sér.
Á endanum sé það ríkið og skattborgarinn sem borgi hverja einustu krónu, en málið snúist um að finna hagkvæmustu og ódýrustu leiðina fyrir skattborgarann.