Jóhannes Jónsson, oft kenndur við Bónus, er efstur á lista DV yfir þá sem greiða hæsta skatta af þeim sem starfa við fjármál og stjórnun fyrirtækja. Nema tekjur hans á mánuði rúmum 14,5 milljónum króna. Kristján V. Vilhelmsson, útgerðarstjóri Samherja er í öðru sæti listans með 12,7 milljónir króna í tekjur á mánuði.
Andrés Magnússon, læknir, er með hæstu tekjurnar af þeim sem sitja á Stjórnlagaráði, 1,5 milljónir króna á mánuði. Katrín Fjeldsted, læknir, skipar annað sæti þess lista með rúma eina milljón króna í tekjur á mánuði.
Leiðrétt klukkan 15:40 Rangt er farið með laun Ingibjargar Harðardóttur í tekjublaði DV. Er nær lagi að segja að árslaun hennar gætu nálgast þá fjárhæð sem DV segir að hún sé með á mánuði.
Ingibjörg Harðardóttir, sveitarstjóri Grímsness- og Grafningshrepps, skipar efsta sæti lista DV yfir tekjuhæstu stjórnmálamennina með 9 milljónir króna á mánuði. Smári Geirsson, bæjarfulltrúi og kennari í Fjarðabyggð, er í öðru sæti listans með tæpar 3,7 milljónir króna á mánuði.
Leiðrétting klukkan 14:40. Smári Geirsson segir upplýsingar í DV um laun hans rangar. Hann hafi verið með 6,9 milljónir króna í árslaun á síðasta ári.
Af þeim sem starfa fyrir hagsmunasamtök og félög á vinnumarkaði er Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri FÍB með mestar tekjur eða tæpar 6,3 milljónir króna í tekjur á mánuði.
Leiðrétting birt klukkan 10:25
Tölur DV um tekjur Runólfs Ólafssonar eru ekki réttar að sögn Runólfs sem telur að blaðið hafi tekið árstekjur hans og skráð sem tekjur á mánuði. Beðist er velvirðingar á þessari rangfærslu en upplýsingarnar sem birtar eru á mbl.is byggja á upplýsingum sem birtar eru í DV í dag.
Forstjóri Landsvirkjunar, Hörður Arnarson, er í efsta sæti á lista DV yfir starfsmenn í opinberri stjórnsýslu en tekjur hans á mánuði eru 9,1 milljón króna. Róbert Spanó, forseti lagadeildar HÍ, er í öðru sæti listans með 2 milljónir á mánuði.
Slitastjórnarmenn tekjuháir samkvæmt DV
Í lista DV yfir tekjuhæstu einstaklinga í réttarkerfinu er Ólafur Garðarsson, formaður slitastjórnar Kaupþings, tekjuhæstur með 2,8 milljónir króna í tekjur og í öðru sæti er Jóhannes Rúnar Jóhannsson, lögmaður og nefndarmaður í skilanefnd Kaupþings, með 1,8 milljónir króna á mánuði í tekjur.
Árni Tómasson, löggiltur endurskoðandi og formaður skilanefndar Glitnis, er tekjuhæsti endurskoðandi landsins með 2 milljónir króna á mánuði. Í öðru sæti er Vignir Rafn Gíslason, löggiltur endurskoðandi hjá PwC með 1,8 milljón króna á mánuði í tekjur.
Í heilbrigðisþjónustu er Ragnar Magnús Traustason, tannréttingar, skráður með 3,8 milljónir króna í tekjur á mánuði, samkvæmt DV en í öðru sæti er Guðmundur Sigurðsson læknir á Hólmavík með 3 milljónir á mánuði í tekjur.
Jóhannes Sigfússon, sauðfjárbóndi á Gunnarsstöðum í Þistilfirði, er efstur á lista yfir þá tekjuhæstu í landbúnaði með tæpa milljón á mánuði en Sveinn Sigurmundsson, framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Suðurlands er í öðru sæti með rúmar 662 þúsund krónur á mánuði.
Hilmar Baldur Baldursson, flugrekstrarstjóri hjá Icelandair er tekjuhæstur þeirra sem starfa við flug með tæpar 1,8 milljónir króna á mánuði. Benóný Ásgrímsson, flugstjóri hjá Landhelgisgæslunni er í öðru sæti með 1,7 milljónir króna á mánuði.
Tekjuhæsti arkitektinn með 5,7 milljónir á mánuði
Valdimar Harðarson, arkitekt hjá ASK arkitektum er tekjuhæstur arkitekta og verkfræðinga með 5,7 milljónir króna í tekjur á mánuði og Ari Stefánsson framkvæmdastjóri Jarðborana er í öðru sæti listans með 2,1 milljón króna í tekjur á mánuði.
Cecil Haraldsson, prestur á Seyðisfirði, er með rúma eina milljón á mánuði yfir tekjuhæstu einstaklinga sem starfa við trúfélög, samkvæmt DV. Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, er í öðru sæti listans með 970 þúsund krónur á mánuði.
Ólafur Teitur Guðnason, upplýsingafulltrúi Alcan á Íslandi er tekjuhæstur þeirra sem starfa við upplýsinga- og markaðsmál en hann er með 1,5 milljónir króna í tekjur á mánuði. Erna Indriðadóttir, upplýsingafulltrúi Fjarðaáls er í öðru sæti listans með tæpar 1,4 milljónir króna á mánuði í tekjur.
Pálmi Gunnarsson, söngvari og veiðimaður, er sá listamaður sem er tekjuhæstur á Íslandi, samkvæmt tekjublaði DV. Nema tekjur hans á mánuði rúmlega 1,3 milljónum króna á mánuði. Ólafur Haukur Símonarson, rithöfundur, er með tæpar 1,3 milljónir króna.
Sæmundur Runólfsson, framkvæmdastjóri Ungmennafélags Íslands, er tekjuhæstur þeirra sem starfa við íþróttir, með tæpar 8,4 milljónir króna á mánuði.
Leiðrétting birt klukkan 11:05 Ekki er rétt farið með tekjur Sæmdunar Runólfssonar í tekjublaði DV og telur hann að þetta sé meira en árstekjur hans. Beðist er velvirðingar á þessu ranghermi sem byggir á tölum sem DV birtir í dag.
Eiður Smári Guðjohnsen, knattspyrnumaður, er með tæpar 1,4 milljónir króna á mánuði.
Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, er tekjuhæstur fjölmiðlafólks með rúmar 3,9 milljónir króna á mánuði en Jón Kaldal, ritstjóri Fréttatímans er í öðru sæti listans með tæpar 1,7 milljónir á mánuði.
Í ferðaþjónustu og veitingarekstri er Friðrik Pálsson, eigandi Hótel Rangár, með hæstu tekjurnar, tæpar 2,2 milljónir á mánuði. Jóhannes Viðar Bjarnason, veitingamaður á Fjörukránni, er í öðru sæti með 1,9 milljónir króna.
Fyrrum rektorar tekjuhæstir skólafólks
Yfir háskólafólk er Ágúst Einarsson, fyrrverandi rektor Háskólans á Bifröst með hæstu tekjurnar, 2,3 milljónir króna á mánuði. Svafa Grönfeldt, fyrrverandi rektor Háskólans í Reykjavík, er skráð sem háskólastarfsmaður hjá DV en hún er með 1,9 milljónir króna í tekjur á mánuði.
Jón H. B. Snorrason, aðstoðarlögreglustj. höfuðborgarsvæðisins, er skráður tekjuhæsti einstaklingurinn í löggæslu hjá DV með rúma eina milljón króna á mánuði. Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, er með 987 þúsund á mánuði.
Svava Johansen, kaupmaður, er með mestu tekjurnar í flokki verslunarmanna með 1,2 milljónir króna á mánuði. Ingþór Ásgeirsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Pennans, er í öðru sæti listans með tæpa milljón á mánuði.