„Þessi átök um fangelsið sýnir vel í hvaða fangelsi ríkisstjórnin er búin að koma sjálfri sér,“ segir Kristján Þór Júlíusson alþingismaður sem segir ríkisstjórnina ekki horfast í augu við þá staðreynd að henni hafi mistekist að byggja upp framtíðartekjur fyrir ríkissjóð.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hafa síðustu daga tekist opinberlega á um hvort ríkissjóður eigi að reisa fangelsi eða hvort reisa eigi það í einkaframkvæmd.
„Ráðherrarnir deila um hvort reisa eigi fangelsi í ofurskuldsettum ríkissjóði eða fá einhverja aðra til að reisa fangelsið og greiða það úr ofurskuldsettum ríkissjóði á lengri tíma. Hvorki innanríkisráðherra né fjármálaráðherra vilja horfast í augu við það að ríkissjóður ræður ekkert við afborganir af þessu öðruvísi en þeir hætti að afneita þeirri stöðu sem þeir hafa búið til sjálfir. Þeir hafa ekki lagt neitt af mörkum til að efla verðmætasköpun í þjóðfélaginu.“
Kristján Þór segir mikilvægasta verkefni ríkisstjórnarinnar að byggja upp framtíðartekjur fyrir ríkissjóð. Þar hafi ráðherrarnir algerlega brugðist og þess vegna ráði þeir ekki við hallann á fjárlögum.