Ánægð með samhljóm í ráðinu

Salvör Nordal, formaður Stjórnlagaráðs, segist ánægð með hversu samhljóða samþykki ráðsins á frumvarpi að stjórnarskrá hafi verið. Mjög mikilvægt sé að stjórnarskráin hafi verið sett á dagskrá með stofnun ráðsins og umræður um hana hafi skapast í samfélaginu.

„Ég er mjög sátt við að við höfum lokið þessari vinnu á þessum tíma. Ég hef sagt að þetta hafi verið skammur tími og ég held að sumar hugmyndirnar þurfi meiri greiningu og ítarlegri skýringu. Það mun örugglega eiga sér stað á næstu vikum og mánuðum,“ segir Salvör.

Frumvarpið hafi verið samþykkt samhljóða af fulltrúum ráðsins og við það sé hún afar sátt. Verklag hópsins hafa verið nýstárlegt og opið að mörgu leyti. Aðkoma almennings hafi verið hugmyndafræði ráðsins. Mikilvægt hafi verið að stjórnarskráin og málefni hennar hafi verið sett á dagskrá með þessum hætti.

„Það skapaði umræðu sem ég held að sé mjög þörf í okkar samfélagi,“ segir Salvör.

Ekki tókst að afgreiða aðfaraorð í dag en ráðið lenti í tímahraki með þau að sögn Salvarar. Ráðið eigi eftir að setjast niður og ákveða endanlega hvernig störfum þess verður lokið. Þá verði aðfaraorðin væntanlega rædd frekar.

Stjórnarskrárfrumvarp samþykkt

Salvör Nordal.
Salvör Nordal.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka