Rakst í sjónvarpsskjá og stefnir Icelandair

mbl.is/GSH

Kona, búsett í Los Angeles í Bandaríkjunum, hefur höfðað skaðabótamál gegn Icelandair og segist hafa slasast þegar hún rak höfuðið í sjónvarpsskjá fyrir ofan sæti hennar í flugvél félagsins.

Héraðsdómari í Los Angeles hafði vísað máli konunnar frá. En nú hefur nefnd þriggja dómara áfrýjunardómstóls komist að þeirri niðurstöðu, að dómarum hafi ekki verið stætt á að krefjast þess að konan þurfi að sanna að óhappið sé skilgreint sem „slys" samkvæmt stöðlum bandarísku flugmálastofnunarinnar, FAA, áður en málið verði tekið fyrir í dómi. 

Fram kemur á vefnum dailynews.com í Los Angeles, að konan, sem heitir Elin Phifer, var á leið frá Minneapolis/St. Paul flugvellinum til Keflavíkur 2. september 2006.  

Phifer segist hafa sett handfarangur undir sætið fyrir framan sig og síðan staðið upp og rekið höfuðið í sjónvarpsskjá fyrir ofan sætið, sem hafði verið látinn síga niður.  

Phifer segist hafa fengið sár á höfuðið og einnig heilaskaða sem olli minnistapi og hreyfihömlum. Hún segir, að Icelandair beri ábyrgð á tjóni sínu vegna þess að áhöfn vélarinnar hafi ekki lyft sjónvarpsskjánum á meðan farþegarnir voru að koma sér fyrir í sætunum. 

Icelandair taldi hins vegar að þetta óhapp félli ekki undir skilgreiningu FAA vegna þess að það varð ekki undir „óvæntum og utanaðkomandi" kringumstæðum.

Otis D. Wright II, dómari, féllst á sjónarmið Icelandair og vísaði málinu frá en nú hefur áfrýjunardómstóll komist að þeirri niðurstöðu, að taka eigi málið fyrir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert