Stjórnarskrárfrumvarp samþykkt

Stjórnlagaráð á fundi.
Stjórnlagaráð á fundi. mbl.is/Golli

Stjórnlagaráð samþykkti nú síðdegis  frumvarp að nýrri stjórnarskrá með 25 samhljóða atkvæðum.  Var klappað í fundarsal stjórnlagaráðs þegar atkvæðagreiðslunni lauk.

Salvör Nordal, formaður stjórnlagaráðs, sagði í atkvæðaskýringu, að það hefði verið lærdómsríkt og skemmtilegt að taka þátt í starfi ráðsins og þar hefði orðið til samfélagsleg umræða um mörg álitaefni. Sumt í frumvarpinu þurfi þó frekari skýringu og ýtarlegri greiningu. Frumvarpið þurfi „álagspróf" enda hafi það tekið breytingum til loka. 

Margir gerðu grein fyrir atkvæði sínu. Margir fulltrúar í stjórnlagaráðinu, sem gerðu grein fyrir atkvæði sínu, lýstu ánægju með starf ráðsins og  niðustöðuna. Katrín Oddsdóttir sagðist segja „jahá" við stjórnarskrárfrumvarpinu og Freyja Haraldsdóttir sagði „auðvitað já." 

Örn Bárður Jónsson sagðist hafa lagt sig fram við að ná samstöðu í ráðinu og eytt miklum tíma í að ná fram málamiðlunum við lítinn hóp sem hefði sýnt mikinn þvergirðingshátt oft á tíðum. Sagðist Örn Bárður hafa staðið við allt sem samþykkt var en í dag hefði þessi sátt verið rofin. Vísaði hann þar til ágreinings um aðfaraorð, sem kom upp á fundi ráðsins í dag. 

Sagðist Bárður styðja stjórnarskrárfrumvarpið enda hefði hann samþykkt hverja einustu grein en það hefði dregið ský fyrir sólu og hann færi með hryggð í hjarta heim. 

Ákveðið var að fresta til morguns frekari umræðu um aðfaraorð að frumvarpinu, hvernig þau eigi að vera orðað eða hvort slík aðfaraorð eigi yfirleitt að fylgja með. 

Stjórnarskrárfrumvarpið verður afhent Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, forseta Alþingis, á föstudag.

Vefur stjórnlagaráðs

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert