Stjórnlagaráð lýkur störfum í dag að lokinni síðari umræðu um drög að nýrri stjórnarskrá.
Í gær samþykkti stjórnlagaráð kafla um Alþingi þar sem fram komu ýmis nýmæli sem ætlað er að styrkja störf löggjafarvaldsins ásamt því að efla eftirlitshlutverk þingsins.
Meðal þess sem samþykkt var er að samkvæmt drögum geta tíu af hundraði kjósenda krafist þjóðaratkvæðis um nýsamþykkt lög Alþingis. Að sama skapi geta tveir af hundraði kjósenda lagt fram þingmál á Alþingi. Er með þessu lögð aukin áhersla á lýðræðislega þátttöku almennings. Atkvæði kjósenda skulu óháð búsetu vega jafnt og kjósendum gefinn kostur á að velja frambjóðendur með persónukjöri þvert á lista. Einnig var kveðið á um að forseti Alþingis verði kosinn með 2/3 hlutum atkvæða í upphafi hvers kjörtímabils.