Nokkuð var um hraðakstur í umdæmi lögreglunnar á Blönduósi síðdegis í dag. Voru tíu ökumenn stöðvaðir fyrir hraðakstur, þar á meðal einn hollenskur ökumaður sem taldi sig ekki þurfa að greiða sekt þar sem hann ætti inni pening hjá Íslendingum vegna Icesave.
Var maðurinn tekinn á 116 kílómetra hraða á klukkustund en hann var alls ekki á því að hann þyrfti að borga sekt. Hann hefði átt peninga á reikningi í Icesave í Hollandi. Var honum sagt að lögreglan á Blönduósi skipti sér ekki af niðurstöðu Icesave-deilu Íslendinga og Hollendinga. Eitt yrði yfir alla að ganga. Eftir nokkuð japl, jaml og fuður féllst maðurinn þó á að borga sektina.
Þá var annar ökumaðurinn tekinn á 118 kílómetra hraða með fellihýsi í eftirdragi. Þarf hann að greiða sjötíuþúsund króna sekt þar sem hámarkshraði fyrir bíla með fellihýsi er 80 kílómetrar á klukkustund.