Fréttatíminn: Vínbirgðir kyrrsettar

Slitastjórn Kaupþings hefur fengið kyrrsetningarbeiðni sína á 271 fermetra iðnaðarhúsnæði á Smiðshöfða í Reykjavík samþykkta. Alls hljóðar kyrrsetningarbeiðnin upp á 154,8 milljónir. Heimildir Fréttatímans herma að í húsnæðinu sé að finna áfengi sem er metið á 200-300 milljónir króna.

Beiðnin er hluti af málarekstri slitastjórnarinnar gegn Ingólfi Helgasyni, fyrrverandi forstjóra Kaupþings á Íslandi, og Steingrími P. Kárasyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra áhættustýringar bankans.

Slitastjórnin hefur höfðað mál gegn tvímenningunum og fleiri lykilmönnum bankans til riftunar á niðurfellingum ábyrgða sem stjórn gamla bankans samþykkti 25. september 2008. Um er að ræða upphæðir sem hlaupa á hundruðum milljóna í einhverjum tilfellum.

Neitað um að fara inn í húsnæðið

„En það er ekki bara iðnaðarhúsnæðið sjálft sem slitastjórnin hefur áhuga á. Að því er heimildir Fréttatímans herma leikur grunur á að innan veggja þess sé að finna gífurlegt magn af áfengi að verðmæti tvö til þrjú hundruð milljónir.

Sýslumaðurinn í Reykjavík samþykkti kyrrsetningarbeiðnina en neitaði innsetningarbeiðni slitastjórnar sem laut að því að komast inn í húsnæðið til að fá staðfest hvað leyndist innan veggja þess.

Eftir því sem Fréttatíminn kemst næst hefur slitastjórnin íhugað að vakta húsnæðið í von um að fá meiri vitneskju um það en ekki fékkst staðfest hjá meðlimum slitastjórnar hvort slík aðgerð hefði farið fram," segir á forsíðu Fréttatímans en blaðið kemur út á morgun.

 Einbýlishús meðal eigna sem eru kyrrsett

Einbýlishús Sigurðar Einarssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Kaupþings, á Seltjarnarnesi; hús Guðnýjar Örnu Sveinsdóttur, fyrrverandi fjármálastjóra Kaupþings, í Breiðholti og hús Ingólfs Helgasonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings á Íslandi, í Kópavogi eru meðal eigna sem slitastjórn Kaupþings hefur fengið kyrrsettar í tengslum við dómsmál sem hún hefur höfðað gegn nokkrum af æðstu stjórnendum gamla Kaupþings vegna riftunar á niðurfellingu persónulegra ábyrgða þeirra á lánum sem Kaupþing veitti þeim til kaupa á hlutabréfum í bankanum.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert