Vel heppnaður múffubasar – Mömmur og muffins – var haldinn í Lystigarðinum á Akureyri í fyrrasumar. Um 1.000 kökur seldust og rann ágóðinn, 400.000 krónur, óskiptur til fæðingardeildar Sjúkrahússins á Akureyri.
Til stóð að endurtaka leikinn nú á laugardag en aðstandendum Mamma og muffins var tilkynnt af heilbrigðisyfirvöldum að ekki væri heimilt að selja heimabakaðar kökur á slíkum basar.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segja heilbrigðisyfirvöld að hreinlætissjónarmið ráði því að ekki megi selja mat sem framleiddur er í heimahúsum. „Það er dapurlegt, í þessum sparnaði, að fólk megi ekki leggja sig fram sjálft,“ segir Auður Skúladóttir, einn af aðstandendum markaðarins.