„Þessi skafl er í rauninni mjög merkilegur mælikvarði á loftslagið,“ segir Páll Bergþórsson veðurfræðingur um snjóskaflinn í Gunnlaugsskarði í Esjunni en afskaplega náið samhengi sé á milli tíðarfarsins og þess hvort skaflinn hverfi yfir sumarmánuðina eða í kjölfar þeirra.
Páll segir að enn sé óvíst hver örlög skaflsins verði í sumar en hann hafi enn ekki horfið. Fram kemur hins vegar í grein eftir hann á vefsíðu Veðurstofu Íslands að á síðasta ári hafi skaflinn horfið tíunda árið í röð. Það hafi ekki gerst svo lengi samfellt síðan farið var að fylgjast nokkuð reglulega með honum 1909.
Þá segir í grein Páls að heimildir séu fyrir því að umræddur snjór hafi ekki horfið í áratugi fyrir árið 1929 eða a.m.k. síðan 1863.