Ársverðbólga mælist nú 5% og hefur farið hratt vaxandi frá áramótum. Hún hefur ekki mælst meiri síðan í júní í fyrra þegar hún var 5,7%. Viðvarandi verðbólga leiðir vitaskuld til kjaraskerðingar á formi kaupmáttarrýrnunar.
Það var því ein af forsendum nýgerðra kjarasamninga að endurskoða bæri þá með reglulegu millibili með tilliti til þróunar verðbólgu og kaupmáttar, meðal annars.
Matthías Kjeld, hagfræðingur hjá Alþýðusambandi Íslands, segir kjarasamningana ennþá það nýgerða að erfitt sé að draga marktækar ályktanir af áhrifum þeirra fyrr en líða tekur á haustið. „Auðvitað er svolítið óþægilegt að sjá þessar tölur, en það er náttúrlega heilmikið eftir af árinu,“ segir hann. Samkvæmt samningunum kemur svokölluð forsendunefnd, skipuð fulltrúum aðildarsamtaka ASÍ og Samtaka atvinnulífsins, saman í byrjun næsta árs og fer yfir það hvernig til hefur tekist frá undirritun til áramóta.