Skaftárhlaup að hefjast

Oddsteinn Kristjánsson, bóndi í Hvammi, við eitt af fyrri Skaftárhlaupum.
Oddsteinn Kristjánsson, bóndi í Hvammi, við eitt af fyrri Skaftárhlaupum. mbl.is/RAX

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra segir, að samkvæmt upplýsingum frá vatnamælingamönnum Veðurstofu Íslands sé hlaup að hefjast í Skaftá. Skaftá hljóp einnig í júní í fyrra. Hlaupin voru tvö, það fyrra hófst 20. júní og það síðara 27. júní.

Í Skaftárhlaupum getur vatn farið yfir Skaftártunguveg við Hvamm og vegurinn í Skaftárdal lokast. Þá kemur fyrir, að vatn fari yfir veginn við Hólaskjól á Fjallabaksleið nyrðri.

Upptök Skaftár eru í Skaftárjökli í Vatnajökli austan við Langasjó. Fólki er ráðlagt að vera ekki nálægt upptökum Skaftár eða í lægðum meðfram henni vegna mengunar af völdum brennisteinsvetnis, en brennisteinsvetni getur skaðað slímhúð í augum og öndunarvegi.

Skaftárhlaup koma úr tveimur kötlum í Vatnajökli. Þar eru jarðhitasvæði sem bræða jökulinn án afláts en vatnið sleppur ekki burt vegna þess að þar er lægð í yfirborð jökulsins. Hlaup úr eystri katlinum eru jafnan stærri en þau sem koma úr vestari katlinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert