Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður, gagnrýnir söluna á Sjóvá og segir að hægt hefði verið að fá hærra verð fyrir hlut ríkisins í Sjóvá.
„Ekki var farið eftir verklagsreglum sem lagt var upp með í byrjun. Aldrei hafa fengist nein svör við neinum spurningum sem upp komu á meðan unnið var að málinu,“ segir Guðlaugur.
Guðlaugur segist furða sig á því að ríkisstjórnin fari ekki eftir verklagi sem hún hafi lýst margsinnis yfir í stefnu sinni. „Samkvæmt þeim upplýsingum sem hafa komið fram er tilboðið ekki jafn gott eins og hæsta tilboð sem af einhverjum óskilgreindum ástæðum var ekki tekið.“
Fyrir tveimur árum kom ríkið Sjóvá til bjargar og lagði fram tólf milljarða króna inn í félagið. Í gær seldi Seðlabankinn svo helmings hlut ríkisins í Sjóvá fyrir tæpa fimm milljarða króna til lífeyrissjóða og fjárfesta.
„Þeir sem keyptu hlutina í gær, hafa nú forkaupsrétt á þeim tuttugu prósenta hlut sem Seðlabankinn sér um að selja. Seðlabankinn verður því áfram virkur þátttakendi á samkeppnismarkaði,“segir hann
Hann segir að ef þetta gangi eftir fái ríkið 7,3 milljarða króna í ríkiskassann og tapið muni nema um 4,3 milljörðum króna.
Guðlaugur Þór segir að miðað við þær upplýsingar sem komið hefðu fram hefðu skattgreiðendur komist mun betur frá þessu ef hæsta tilboðinu hefði verið tekið.
„Nú liggur það fyrir að hæsta tilboðinu hafi ekki verið tekið í Sjóvá og engar skýringar hafi borist á því af hverju svo er,“ segir Guðlaugur sem hyggst fara fram á fund viðskiptanefnd Alþingis en hann situr í nefndinni fyrir Sjálfstæðisflokkinn.