Rigning hefur verið í Vestmannaeyjum í dag en stytt hefur upp á síðustu mínútum segir Páll Scheving, formaður þjóðhátíðarnefndar. „Hér er hægvirði, notalegt og heilmikil stemning.“ Hann segist vona að veðrið hangi þurrt fram yfir brennuna sem kveikt verður í á miðnætti að venju.
Páll Óskar er nú að gera sig tilbúinn til að stíga á stokk og flytja þjóðhátíðarlagið í ár sem ber nafnið „La Dolce Vita“. Síðar í kvöld koma svo meðal annars fram Mannakorn, Friðrik Dór og Blaz Roca.
Hápunktur kvöldsins er hin árlega brenna sem kveikt verður í á miðnætti.
„Við vonum að það verði þurrt þá, það er að minnsta kosti einhver uppstyttingur núna. Ég er ánægður með það. Ég vona að hann hangi fram yfir brennu,“ segir Páll.