Hlaupið komið í Skaftá

Hlaup virðist vera að byrja í Skaftá. Myndin er af …
Hlaup virðist vera að byrja í Skaftá. Myndin er af hlaupi sem hófst í Skaftá 27. júní 2010 mbl.is/Ómar Óskarsson

Vatnsmælir Veðurstofunnar í Skaftá er farinn að sýna merki þess að hlaup sé í Skaftá. Vatnshæð og rennsli hefur aukist hratt, leiðnin er á uppleið og gruggið sömuleiðis.

Hjá vatnamælingadeild Veðurstofunnar fengust þær upplýsingar að nokkuð jöfn dægursveifla sé alla jafna í Skaftá. Hún hefur náð hámarki um miðnætti og lágmarki rétt fyrir hádegi.

Óðinn Þórarinsson hjá Veðurstofunni sagði að mælingar frá hádegi í dag hafi sýnt mjög brattan vöxt árinnar. Þetta þykir benda til þess að áin sé að bregða út af venjubundinni hegðun. 

Flugmaður sem flaug yfir jökulinn sá greinileg merki þess að vatn væri að hlaupa úr vestari Skaftárkatlinum. Þá flaug flugmaðurinn yfir útfallið í 300 metra hæð og fann hann mjög sterka brennisteinslykt.

Flest bendir því til þess að hlaupið sé að skila sér í Skaftá. 

Rúmt ár er síðan hljóp úr báðum Skaftárkötlum og því ekki safnast upp mikið vatn. Minna safnast í vestari ketilinn en þann austari og því ekki búist við stóru hlaupi nú. Venjulega hefur hlaupið úr öðrum hvorum Skaftárkatlinum á rúmlega árs fresti frá því mælingar hófust 1955. 

Merki um hlaup eru farin að koma fram á vatnsmæli …
Merki um hlaup eru farin að koma fram á vatnsmæli Veðurstofunnar í Skaftá við Sveinstind. www.vedur.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert