Fréttaskýring: Stjórnarskrá verði breytt umtalsvert

Frá fundi stjórnlagaráðs.
Frá fundi stjórnlagaráðs. mbl.is/Golli

Stjórnlagaráð samþykkti á miðvikudag frumvarp til stjórnskipunarlaga og það verður afhent Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, forseta Alþingis, í Iðnó í dag klukkan 10:30.

Nýja frumvarpið felur í sér umtalsverðar breytingar á núverandi stjórnarskrá. Það er jafnframt að mestu leyti efnislega óbreytt frá því að stjórnlagaráð birti drög að frumvarpi nýrra stjórnskipunarlaga fyrir rúmri viku. Engin greinargerð var birt með frumvarpinu á heimasíðu stjórnlagaráðs en að sögn Berghildar Erlu Bernharðsdóttur, upplýsingafulltrúa stjórnlagaráðs, er nú unnið að greinargerðinni og gert er ráð fyrir að hún verði tilbúin fljótlega eftir helgi. Í greinargerðinni verður vafalaust að finna ýtarlegri upplýsingar um ákvæði frumvarpsins og hvernig ber að túlka inntak þeirra.

Í fyrsta kafla frumvarpsins er fjallað um undirstöður stjórnskipunarinnar og í 1. gr. segir að Ísland „[sé] lýðveldi með þingræðisstjórn“. Í kaflanum er jafnframt fjallað um þrískiptingu ríkisvalds, yfirráðasvæði, ríkisborgararétt og í 5. gr. segir að allir skuli virða stjórnarskrána og þau lög, skyldur og réttindi sem af henni leiða.

Stór og endurnýjaður mannréttindakafli

Annar kafli ber heitið Mannréttindi og náttúra og ákvæði hans eru 31 talsins, um helmingi fleiri en í núgildandi stjórnarskrá. Í 6. gr. er að finna ákvæði um jafnræðisreglu sem er ýtarlegra en núgildandi ákvæði. 6. gr. nýja frumvarpsins er jafnframt, af ókunnri ástæðu, eina ákvæði þess sem er orðað í fyrstu persónu fleirtölu: „Öll erum við jöfn fyrir lögum [...]“. Í 7. gr. segir hins vegar að „allir [hafi] meðfæddan rétt til lífs“ en ekki að við öll eigum þann rétt og svo framvegis. Í 8. gr. er kveðið á um réttinn til að lifa með reisn og í henni segir ennfremur að „margbreytileiki mannlífsins [skuli] virtur í hvívetna“. Fleiri ný ákvæði eru athyglisverð, til að mynda 35. gr. sem fjallar um skyldu yfirvalda til að upplýsa almenning um ástand umhverfis og náttúru og áhrif framkvæmda þar á. Í kaflanum er einnig að finna kunnugleg ákvæði úr núgildandi mannréttindakafla stjórnarskrár um t.d. tjáningarfrelsi og friðhelgi einkalífs. Í þriðja kafla er fjallað um Alþingi og í 39. gr. segir að við kosningar velji kjósandi með persónukjöri frambjóðendur af listum í sínu kjördæmi eða af landslistum. Jafnframt segir að kjördæmi skuli „flest vera átta“. Í 50. gr. segir að þingmönnum sé óheimilt að taka þátt í meðferð þingmáls sem varði sérstaka og verulega hagsmuni þeirra og að þeir þurfi jafnframt að veita upplýsingar um fjárhagslega hagsmuni sína. Í 62. gr. segir að Alþingi kjósi í Lögréttu fimm menn til fimm ára. Lögrétta verður ráðgefandi stjórnlaganefnd. Þriðjungur þingmanna eða þingnefnd mun geta óskað eftir ráðgefandi áliti Lögréttu um hvort frumvarp til laga samrýmist stjórnarskrá.

Greinar 65 – 67, sem fjalla um málskot til þjóðarinnar og þingmál að frumkvæði kjósenda, vekja athygli. Í 65. gr. segir að tíu af hundraði kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðis um lög sem Alþingi hefur samþykkt. Í 66. gr. segir að tveir af hundraði geti lagt fram þingmál á Alþingi og tíu af hundraði kjósenda geti lagt fram frumvarp til laga fyrir Alþingi. Í 67. gr. segir hins vegar að mál, sem komi til þingsins að frumkvæði kjósenda, verði að varða almannahag og ekki sé hægt að krefjast atkvæðagreiðslu um fjárlög, fjáraukalög, lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum né heldur um skattamálefni eða ríkisborgararétt.

Alþingi samþykkti, með þingsályktun 24. mars síðastliðinn, að fela ráðgefandi Stjórnlagaráði að gera tillögur um breytingar á stjórnarskránni í formi frumvarps til stjórnskipunarlaga. Frumvarp ráðsins getur hins vegar breyst í meðförum Alþingis. Í áliti allsherjarnefndar frá 14. mars kom fram að vilji meirihluta stæði til að taka eins og hægt væri tillit til hugmynda um að efna til kosningar um niðurstöður stjórnlagaráðs áður en þær kæmu til kasta Alþingis.

Forseti staðfestir skipun dómara

Forseti heldur umdeildum málskotsrétti sínum í 60. gr. nýja frumvarpsins. Hann mun jafnframt hafa vald til að synja staðfestingar í embætti dómara og ríkissaksóknara. Hann mun einnig aðeins geta setið þrjú kjörtímabil í starfi skv. 79. gr. frumvarpsins.

Auðlindir „ævarandi eign þjóðarinnar“

Í 34. gr. um náttúruauðlindir segir m.a. eftirfarandi: „Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið auðlindirnar eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja.“

Smærri breytingar án atkvæðagreiðslu

Kveðið er á um breytingar á stjórnarskrá í 113. gr. frumvarpsins. Breytingar krefjast ávallt þjóðaratkvæðagreiðslu en aftur á móti segir að samþykki 5/6 þingmanna breytingafrumvarp megi fella þjóðaratkvæðagreiðslu niður og frumvarpið öðlist gildi engu að síður. Þetta áhugaverða ákvæði mun einungis vera hugsað fyrir „smávægilegar“ stjórnarskrárbreytingar.

Áhrif á náttúru og umhverfi mikilvæg

Mannréttindakafli frumvarpsins er helmingi lengri en í núgildandi stjórnarskrá. Þar er að finna ýmis nýmæli, þ.á m. ákvæði sem kveður á um að tryggja skuli almenningi aðgang að undirbúningi ákvarðana sem hafa áhrif á umhverfi og náttúru.

Jafnt vægi atkvæða og persónukjör

Í 39. gr. er að finna ýtarleg fyrirmæli um alþingiskosningar. Þar segir meðal annars að atkvæði kjósenda alls staðar á landinu skuli vega jafnt. Ennfremur er kveðið á um að kjósandi geti með persónukjöri valið frambjóðendur þvert á lista af listum í sínu kjördæmi eða landslistum eða hvoru veggja.

Ráðherrar eigi ekki sæti á Alþingi

Í 86. gr. segir að enginn geti gegnt sama ráðherraembætti lengur en í átta ár. Í 89. gr. segir að ráðherrar hafi ekki atkvæðisrétt á Alþingi og sé alþingismaður skipaður ráðherra eigi hann að víkja úr þingsæti á meðan hann gegnir embættinu og varamaður taki sæti hans.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert