„Það er í raun engin áætlun komin um uppbyggingu,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði, aðspurð hvað tekur við eftir stórbrunann í Eden 22. júlí síðastliðinn. Hún segir málið enn vera í höndum tryggingafyrirtækis og að eigandi lóðarinnar hafi ekki komið fram með neina framtíðaráætlun fyrir svæðið að svo stöddu.
Eden stóð í miðbæ Hveragerðis og því ljóst að um er að ræða svöðusár í blómhnappi bæjarins. „Draumurinn er að eitthvað verði komið þarna næsta sumar,“ segir Aldís og bætir við að ekki liggi fyrir hverskonar rekstur taki við á lóðinni. „Bærinn getur auðvitað ekki farið og gripið fram fyrir hendurnar á þeim sem þarna eiga lóðaréttindi og voru með rekstur.“ Að sögn vonast hún til að uppbygging geti hafist sem fyrst.
Hann segir sparisjóðinn hafa verið í ágætum samskiptum við bæjarskrifstofu Hveragerðis varðandi stöðu mála og segir hann framvindu máls verða áfram unna í góðri sátt.
„Lóðin og þessi eign er tilkomin í grunninn sem fullnustueign,“ segir Ólafur og bendir á að eignirnar hafi verið til sölu í talsverðan tíma og ekki hafi staðið til að sparisjóðurinn yrði framtíðareigandi að þeim. Á meðan eignin var til sölu var hún jafnframt til útleigu hjá rekstraraðilum sem önnuðust rekstur á eigin vegum. „Í sjálfu sér hefur þessi grundvallarmynd ekkert breyst. Þessi verðmæti eru til sölu.“ Hann segir ljóst að uppbygging gæti tekið á sig breytta mynd frá fyrra húsnæði. „Við munum leita eftir aðilum til að annast þessa uppbyggingu.“
Að sögn mun sparisjóðurinn ekki fara einn og sér í uppbyggingu og rekstur á svæðinu.