Allt fast í Norðfjarðargöngum

Allt sat fast í Norðfjarðargöngum í gærkvöldi eftir brekkusöng og …
Allt sat fast í Norðfjarðargöngum í gærkvöldi eftir brekkusöng og flugeldasýningu á Neistaflugi. Sævar Guðjónsson

Umferðaröngþveiti myndaðist í Norðfjarðargöngum í gærkvöldi eftir að brekkusöng á Neistaflugi á Neskaupsstað lauk. Tveir flutningabílar fóru inn í einbreið göngin að sunnanverðu og stífluðust þau þegar þeir mættu bílum úr gagnstæðri átt. Tók um hálftíma til þrjú korter að greiða úr flækjunni.

Sævar Guðjónsson, íbúi á Eskifirði, var einn þeirra sem sat fastur í göngunum þegar hann var á leið heim til sín. Hann segir flutningabílana tvo hafi farið inn í göngin að sunnanverðu hvor á eftir öðrum. Annar þeirra hafi komist inn í útskot þegar þeir mættu bílum í göngunum en hinn hafi hins vegar ekki komist. Ekkert pláss var í göngunum til að bakka og sat þá allt fast.

„Það er aldrei of oft sagt hvað þetta eru hrikalega hættuleg göng. Ég var á ferðinni með fjölskylduna og það var frekar óþægilegt að vera með börnin inn í fullum göngum af útblæstri bifreiða og geta ekkert gert. Það er engin loftræsting í göngunum og slæm lýsing,“ segir Sævar.

Þá hafi hann ekki séð neina neyðarsíma þar sem þeir hefðu átt að vera og ekkert gsm-samband er í göngunum. Ekki leystist úr flækjunni fyrr en lögreglan kom á staðinn.

Sjálfur fór Sævar svo gamla veginn um Oddsskarð í svarta þoku eftir að hafa þurft að bakka um 400-500 metra út úr göngunum.

Íbúar settu upp viðvörunarskilti

Sett voru skilti á sitt hvort opið á göngunum um helgina þar sem varað er við grjóthruni inni í þeim. Hefur Vegagerðin enn ekki sett varúðarskilti sem varar við því en í vor féllu tveir steinar á gólf ganganna. Annar þeirra vó 80 kíló og hinn 100 kíló.

Skilti sem sett var upp við Norðfjarðargöng fyrir helgina.
Skilti sem sett var upp við Norðfjarðargöng fyrir helgina.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert