„Þetta er alveg fáránlegt. Ég gæti ekki verið ánægðari með helgina," sagði Annie Mist Þórisdóttir, sem í kvöld vann heimsbikarmótið í crossfit í kvennaflokki, sem haldið var í Los Angeles.
Annie Mist átti í hörkubaráttu allt til loka við Kristan Clever frá Bandaríkjunum, sem sigraði á mótinu í fyrra en þá varð Annie í öðru sæti. Annie hafði hins vegar betur í þremur síðustu greinunum og í lokin munaði 43 stigum á þeim tveimur.
Fyrir sigurinn fær Annie Mist að launum 250 þúsund dali, um 29 milljónir króna.
Annie Mist er 21 árs gömul og hefur stundað nám við Háskóla Íslands en er nú orðin atvinnumaður í crossfit. Hún hefur tvívegis tekið þátt í heimsleikunum og varð í 11. sæti árið 2009 og í 2. sæti í fyrra. Þá varð hún Evrópumeistari í greininni í júní.
Nánar verður rætt við Annie Mist í fyrramálið í Mbl. sjónvarpi.
Þáttur um keppina í gær á Mbl. sjónvarpi
Heimasíða heimsleikanna í crossfit