Tvö kynferðisbrotamál rannsökuð

Úr Herjólfsdal.
Úr Herjólfsdal. mbl.is/Óskar

Einn gistir fangageymslu vegna rannsóknar þar sem hann er grunaður um að hafa nauðgað konu á hátíðarsvæðinu í Vestmannaeyjum í fyrrinótt. Konan, sem er rúmlega tvítug, tilkynnti um atburðinn síðdegis í gær og gat gefið greinagóða lýsingu á meintum nauðgara.

Hann var síðan handtekinn í nótt á hátíðarsvæðinu af gæslumönnum og var síðan fluttur á Selfoss þar sem hann gistir nú fangageymslu vegna rannsóknar á málinu.

Þá kærði 24 ára kona kynferðisbrot nú í morgun en hún hafði leitað til Heilbrigðistofnunar Vestmannaeyja. Atvikið hafi átt sér stað í Herjólfsdal í nótt. Hún gat ekki bent á geranda og er málið í rannsókn.  

Eyrún Jónsdóttir, verkefnisstjóri neyðarmóttöku, segir að tvær konur hafa leitað til neyðarmóttöku vegna kynferðisbrota á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum um helgina.  Hún segir jafnframt að von sé á einni til tveimur konum til viðbótar.

Hún segir ennfremur að yfirleitt líði nokkrir dagar þangað til fólk leiti sér hjálpar eftir kynferðisbrot og því sé starfsfólk undirbúið fyrir fleiri innlagnir eftir útihátíðarnar.

Kærði líkamsárás

Ein líkamsárás var tilkynnt til lögreglunnar nú í morgun en þar hafði maður verið sleginn þannig að tvær tennur losnuðu.

Alls voru 7 líkamsárásir kærðar til lögreglu. Einn málið var alvarlegast en þá þurfti að flytja mann með sjúkraflugvél til Reykjavíkur aðfaranótt laugardags eftir að bein brotnuðu í andliti hans.

Handtekinn í þriðja sinn

Lögreglan í Vestmannaeyjum segir, að nokkur fíkniefnamál hafi komið upp í gær og nótt. Í einu málinu var maður handtekinn í þriðja sinn um helgina með fíkniefni. Einnig sló hann veitingamann á veitingarstað í bænum og þurfti veitingamaðurinn að leita til læknis til að láta gera að sárum sínum. Á þessum aðila fundust  í einu málinu 10 grömm af amfetamíni.

Heildarfjöldi fíkniefnamála á þjóðhátíð Vestmannaeyja er nálægt 40.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert