Fréttaskýring; Búlandsvirkjun verður reist lengra frá Langasjó

Langisjór.
Langisjór. mbl.is/RAX

Langisjór hefur verið friðlýstur og er orðinn hluti af Vatnajökulsþjóðgarði, ásamt norðausturhluta Eldgjár og svæðinu í kringum vatnið, eins og Fögrufjöllum, Grænafjallgarði og upptökum Skaftár á svæðinu suður að Lakagígum.

Umrædd friðlýsing var stærsta kosningamálið í Skaftárhreppi í síðustu kosningum, vorið 2010. Þá var Jóna Sigurbjartsdóttir oddviti hreppsins og rétt fyrir kosningar var aðalskipulag tilbúið frá Skipulagsstofnun til að fara í auglýsingu. Samkvæmt því skipulagi átti miklu meira svæði að fara undir þjóðgarðinn en raunin er með friðlýsingunni.

Guðmundur Ingi Ingason leiddi N-listann gegn lista Jónu, L-listanum og vildi minnka svæðið til að halda virkjanamöguleikum opnum á svæðinu. Suðurorka hefur meðal annars fengið rannsóknarleyfi til að athuga möguleika á Búlandsvirkjun. Fulltrúar Suðurorku hafa lýst yfir vilja til að fjárfesta fyrir um 36 milljarða króna í Skaftárhreppi vegna virkjanaframkvæmdanna.

Vildu minna svæði

N-listinn með Guðmund Inga í fararbroddi vann kosningarnar og aðalskipulaginu var breytt í framhaldinu. En að sögn Jónu Sigurbjartsdóttur er samt sátt um niðurstöðuna. „Já, meirihluti hreppsins vildi þessa niðurstöðu og eftir að það varð ljóst gengum við í samstarf við N-listann og komumst að sameiginlegri niðurstöðu um breytingar á aðalskipulaginu. Við erum ánægð með að þetta svæði hafi verið fært inn í þjóðgarðinn, þótt upphaflegu tillögurnar okkar hafi verið að svæðið yrði stærra,“ segir Jóna í samtali við Morgunblaðið. „Það skiptir máli að það sé sátt í svona litlu samfélagi eins og okkar og að fólk nái málamiðlunum,“ segir hún.

Guðmundur Ingi Ingason, oddviti Skaftárhrepps, ítrekar sáttina sem náðist milli fólks í hreppnum. Hann bætir við að hreppurinn sé ansi stórt sveitarfélag. „En það er engin stór virkjun á okkar svæði. Það myndi skapa okkur mikla atvinnumöguleika ef hér yrði virkjað. Ég vil líka benda á að með þessu samkomulagi eru virkjanahugmyndirnar komnar miklu neðar og mun lengra frá Langasjó en var,“ segir Guðmundur Ingi.

Staðan hjá Suðurorku

Þess má geta að nýlega kom út skýrsla um rammaáætlun en fulltrúar Suðurorku voru ósáttir við vinnubrögðin sem viðhöfð voru við gerð áætlunarinnar og fannst til dæmis ekkert tillit tekið til stærðar virkjunarkostsins, hagkvæmni og loftmengunar. Suðurorka hefur haft hugmyndir um gerð 150 MW virkjunar í Skaftárhreppi sem nefnd yrði Búlandsvirkjun. Fyrirtækið hefur keypt rannsóknargögn Landsvirkjunar á svæðinu og vatnsréttindi af mörgum landeigendum, en alls ekki öllum. Sumir landeigenda hafa lýst því yfir að þeir muni ekki selja þeim land sitt.

Mikil verðmæti vernduð

Snorri Baldursson þjóðgarðsvörður í Vatnajökulsþjóðgarðinum segir að þau séu mjög ánægð með þessa viðbót við þjóðgarðinn. „Upphaflega hugmyndin var að öll þjóðlenda Skaftárhrepps færi undir þjóðgarðinn,“ segir Snorri, „en við erum voðalega ánægð með það sem þó kom. Langisjór, Eldgjá, Skælingar og svæðið milli Lakagíga og Skaftár eru ótrúlega mögnuð svæði, bæði mjög lítið snortin af mannavöldum og mjög sérstakt landslag, með þessum svörtu söndum og mosavöxnu fjöllum. Þetta er virkasti hluti gosbeltisins sem gengur í gegnum Ísland. Þarna hafa verið þau fjögur risagos á sögutíma sem engin önnur komast nálægt: Vatnaöldugosið, Eldgjárgosið, Veiðivatnagosið og Skaftáreldar í Lakagígum, segir Snorri.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka