Hámark sett á transfitusýru í matvælum

Franskar kartöflur innihalda oft mikið magn transfitusýru
Franskar kartöflur innihalda oft mikið magn transfitusýru mbl.is/Brynjar Gauti

Ný reglugerð um hámark transfitusýra í matvælum tók gildi í gær. Ísland er fjórða Evrópulandið á eftir Danmörku, Austurríki og Sviss sem setur sérstaka reglugerð um takmörkun á þessari gerð fitusýra í matvælum.

Samkvæmt reglugerðinni má innihald transfitusýra ekki fara yfir 2 grömm af hverjum 100 grömmum af heildarfitumagni. Matvælafyrirtæki ber að leggja fram mælingar um magn transfitusýra ef þess er óskað af opinberum eftirlitsaðila. Heilbrigðiseftirlit sveitafélaga fer með markaðseftirlitið.

Hámarksgildin sem reglugerðin nær til eiga við um transfitusýrur í matvælum og gildir einu hvort þær eru sérstakt innihaldsefni, innihaldsefni í öðrum unnum matvælum sem notuð eru í framleiðsluna eða myndist í framleiðsluferlinu sjálfu, segir á vef Matvælastofnunar.

Takmörkun á transfitusýrum í matvælum byggir á fjölmörgum rannsóknum sem hafa sýnt fram á að neysla á transfitusýrum eykur, mun meira en inntaka á annarri harðri fitu, líkur á hjarta- og æðasjúkdómum. Því er litið á þessa reglusetningu sem mikilvægt skref í heilsuvernd fyrir allan almenning, segir á vef Matvælastofnunar.

 Reglugerðin gildir um fitu og önnur matvæli sem innihalda fitu annað hvort sem innihaldsefni eða sem hefur myndast við framleiðslu þeirra, t.d. í djúpsteiktum matvælum eins og frönskum kartöflum. Reglugerðin nær ekki til transfitusýra sem eru í dýrafitu frá náttúrunnar hendi, t.d. í smjöri eða mjólkurvörum.

Franskar kartöflur (og önnur djúpsteikt matvæli) geta t.d. innihaldið transfitusýrur úr steikingarfitunni sem þær eru steiktar í. Þær transfitusýrur sem náttúrulega finnast í lamba- og nautakjöti sem og í mjólkurfitu jórturdýra, þ.e.a.s. í mjólk og mjólkurafurðum falla ekki undir gildissvið reglugerðarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert