Menning, ritlist, umfjöllun um þroskaðar konur, matur og erótík er meðal þess sem fjallað er um á vefnum spegill.is, sem opnaði í gær.
„Spegill er fyrir alla, en við gerum ráð fyrir að höfða til kvenna sem eru eldri en 25 ára,“ segir Steinunn Fjóla Jónsdóttir, sem er annar ritstjóra vefsins.
Steinunn Fjóla starfaði áður á vefsíðunni bleikt.is ásamt Heiðu Þórðardóttur, sem er hinn ritstjóri Spegils. „Sá vefur þróaðist í aðrar áttir en við áttum von á. Okkur fannst að það þyrfti að fylla ákveðið pláss á vefmarkaðnum, okkur fannst vanta vef, sem nálgast konur á þroskaðan hátt. Eitthvað annað en þessa endalausu útlitsdýrkun og slúður,“ segir Steinunn Fjóla.
Nokkuð langur vegur er á milli ritstýranna; Steinunn Fjóla er búsett á Spáni og Heiða á Íslandi. Aukinheldur hafa þær aldrei hist, en hyggjast bæta úr því innan tíðar. „Við fengum þessa hugmynd í spjalli á netinu, hún þróaðist og þetta er útkoman.“
Auk Heiðu og Steinunnar Fjólu skrifar fjöldi kvenna á vefinn um allt á milli himins og jarðar. Og viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa. „Við opnuðum í gær og fyrsta sólarhringinn höfðu 2500 IP-tölur heimsótt vefinn og flettingar voru hátt í tíu þúsund.“
En hvaðan kemur nafnið - spegill.is?
„Spegill er svo vítt hugtak og þú getur speglað allt í speglinum, gildin þín, útlitið, hvað sem er,“ segir Steinunn Fjóla.
spegill.is