„Við erum slegin yfir þessu

Þjóðhátíð í Eyjum
Þjóðhátíð í Eyjum mbl.is

„Við erum slegin yfir þessu; Vestmannaeyingar, þjóðhátíðanefndin, við öll yfir því að gestir okkar hafi orðið fyrir fólskulegum árásum. Þetta er áfall,“ segir Páll Scheving Ingvarsson, formaður Þjóðhátíðarnefndar í Vestmannaeyjum, en tilkynnt hefur verið um fimm kynferðisbrot á hátíðinni.

„Auðvitað viljum við að allir fari frá okkur með góðar minningar í farteskinu og sem betur fer er það oftast þannig, hátíðin hefur lifað í meira en öld,“ segir Páll. „Því miður er þetta brestur í mannlegum samskiptum og það er erfitt að fyrirbyggja þetta með einhverjum hætti.“

Viðbúnaður var á Þjóðhátíð vegna kynferðisbrota, þar var sjúkratjald með læknum og sálgæsluaðilum. Þar var tekið á móti þolendum, þeir síðan færðir á sjúkrahúsið í Vestmannaeyjum og síðan á neyðarmóttöku, kysu þeir svo.

„Ein svona árás er einni of mikið í okkar augum,“ segir Páll.

Hann þakkar árvekni gæslumanna sem varð til þess að gerandi fannst í 14.000 manna mannhafi. Sá situr nú í gæsluvarðhaldi á Selfossi.

En er eitthvað hægt að læra af atburðum helgarinnar?

„Við munum fara ítarlega fyrir málin og þegar allt liggur fyrir munum við skoða það sem gerðist ofan í kjölinn. Ef við sjáum þá, að við hefðum getað brugðist betur við, þá munum við bæta það. Þolendur og aðstandendur þeirra eiga dýpstu samúð Eyjamanna,“ segir Páll.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert