„Allt gengur vel og á eðlilegum hraða og það er tilbúið sem á að vera tilbúið á þessum tímapunkti,“ segir Júlíus Júlíusson, framkvæmdastjóri Fiskidagsins mikla, en undirbúningur fyrir þessa miklu fjölskylduhátíð á Dalvík stendur nú sem hæst.
Þetta verður í ellefta skiptið sem efnt er til Fiskidagsins mikla en undanfarin ár hafa um 30 þúsund gestir sótt hátíðina og í fyrra, þegar haldið var upp á tíu ára afmæli hennar, voru þeir 33 þúsund.
Júlíus segir að líklega sé um Evrópu- og jafnvel heimsmet að ræða. „Okkur hefur verið sagt að þetta sé stærsta sjávarréttahátíð í Evrópu eða heiminum,“ segir hann og bætir því við að fulltrúar frá Guinness-heimsmetabókinni hafi sett sig í samband við skipuleggjendurna en það hafi reynst of dýrt að fá fulltrúa þeirra hingað til lands til að staðfesta metið.
Í umfjöllun um hátíðina og undirbúning hennar í Morgunblaðinu í dag segir, að það sem sé einna sérstakast við hátíðina er að á henni er allt ókeypis. „Það er rukkað vægt gjald á tjaldsvæðinu en dagskráin, matur og drykkur er allt ókeypis,“ segir Júlíus. Fimmtán til átján matarstöðvar verði settar upp að vanda og þar boðið upp á ýmislegt góðgæti af matseðli sem sérstaklega er settur saman fyrir hátíðina ár hvert.