Mál fyrrum fangelsisstjóra Kvíabryggju verður sent ríkissaksóknara á næstu dögum. Rannsóknin tók lengri tíma en búist var við og málið var umfangsmeira en talið var í fyrstu. Þetta segir Friðrik Smári Björgvinsson yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Friðrik Smári segist ekki geta gefið upplýsingar á þessu stigi um að hvaða leyti málið var umfangsmeira en gert var ráð fyrir.
Geirmundi Vilhjálmssyni, fyrrverandi fangelsisstjóri á Kvíabryggju, var handtekinn í byrjun mars, en áður hafði honum verið vikið úr starfi vegna gruns um yfir 40 auðgunarbrot, sölu á eigum ríkisins og að hafa notað fé og eigur fangelsisins til einkanota.
Upphaflega var áætlað að rannsóknin myndi taka nokkrar vikur, en það dróst.
„Það voru svo mörg tilvik sem þurfti að skoða,“ segir Friðrik Smári. „Málið er umfangsmeira en við gerðum ráð fyrir í upphafi.“
Hann segir rannsóknina vera á lokastigi. „Málið fer frá embættinu á næstu dögum til ríkissaksóknara,“ segir Friðrik Smári.