Undrast ummæli Ögmundar

Kristján L. Möller segir fulla samstöðu í hópi allra þingmanna …
Kristján L. Möller segir fulla samstöðu í hópi allra þingmanna kjördæmisins að ráðast eigi í gerð Norðfjarðarganga. mbl.is/Ernir

 Kristján L. Möller, fyrrverandi samgönguráðherra, furðar sig á ummælum Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra í Morgunblaðinu í dag, að engir peningar séu til að ráðast í gerð Norðfjarðarganga. Þetta er rangt, fjármunir eru til reiðu á samgönguáætlun, að sögn Kristjáns.

„Ég er undrandi á þessum ummælum Ögmundar Jónassonar um Norðfjarðargöng,“ segir Kristján um þau ummæli Ögmundar að engir peningar séu til reiðu til að hefja framkvæmdir við göngin. Það hefði verið fellt við tkvæðagreiðslu á Alþingi.

Enginn vafi leikur á að fjármunirnir eru til staðar í samgönguáætlun að sögn Kristjáns. „Í samgönguáætlun sem ég lagði fram á Alþingi í fyrra og var samþykkt 15. júní með 42 atkvæðum, stendur m.a. þetta um Norðfjarðargöng: „Eins og kunnugt er þá er jarðgangaáætlun hluti vegaáætlunar. Í gildandi vegaáætlun var gert ráð fyrir að framkvæmdir við Norðfjarðargöng hæfust árið 2009 en nú er gert ráð fyrir að þær hefjist 2011. Gert er ráð fyrir 220 milljóna kr. framlagi árið 2011 og 1.174 milljónum árið 2012.“

Þessar tölur eru inni í sundurliðaðri samgönguáætlun sem samþykkt var,“ segir Kristján. „Norðfjarðargöng eru þannig samþykkt af  Alþingi og fjármunir til reiðu á samgönguáætlun til að hefja þessa framkvæmd,“ segir hann.

Kristján segist vísa því algerlega á bug sem Ögmundur hélt fram að þetta hafi verið fellt úr vegaáætlun við atkvæðagreiðslu á þingi.

Peningarnir sem eiga að fara í Norðfjarðargöngin á þessu og næsta ári eru 87% af framkvæmdafé Norðausturkjördæmis á árinu 2012. Kristján segir fulla samstöðu í tíu manna þingmannahópi kjördæmisins um þetta verk ,,og þess vegna koma mér ummæli Ögmundar mjög á óvart og skil ekki alveg hvert hann er að fara,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert