Asi starfsmanns þjónustufyrirtækis Iceland Express á Billund-flugvelli í Danmörku að komast í sumarfrí er ástæðan fyrir því að 14 ára gömul stúlka var skilin þar eftir þegar yfirbókað var í vélina. Segir Heimir Már Pétursson, upplýsingafulltrúi Iceland Express, þetta ófyrirgefanlega hegðun.
Ekki var leitað eftir sjálfboðaliðum meðal farþega til að verða eftir þegar ljóst var að yfirbókað var í vélina líkt og reglur gera ráð fyrir. Þurfti stúlkan því, í samfloti við ókunnugan mann í sömu sporum, að gera sér að góðu langt ferðalag til Íslands, með viðkomu í Kaupmannahöfn og Gautaborg. Alls tók ferð stúlkunnar, sem var peningalaus enda ekki búin undir langt ferðalag, um sólarhring.
Heimir Már segir augljóst að þjónustufyrirtækið Billund Airport Handling hafi gert mistök með því að auglýsa ekki eftir farþegum sem voru tilbúnir til að verða eftir heldur hafi starfsmaður þess meinað síðustu tveimur farþegunum um að koma um borð.
„Við komumst svo að því að hann var á leið í sumarfrí daginn eftir og lá greinilega svona á að hann nennti ekki að vinna vinnuna sína. Við höfum kvartað við þjónustuaðilinn yfir þessari framkomu sem er í algerri andstöðu við starfsreglur Iceland Express. Við þurfum auðvitað að íhuga það hvort við höldum áfram viðskiptum við félag sem hagar sér með þessum hætti,“ segir hann.
Iceland Express þykir leiðinlegt að stúlkan hafi lent á þessum vergangi en hún sé komin til síns heima og skaðaðist ekki af. Fyrirtækið sé ánægt með það og hún og hennar fjölskylda hafi nú þegar fengið þrjá flugmiða í bætur fyrir.