Fjórtán ára stúlka fékk ekki að fara með flugvél Iceland Express frá Billund til Íslands þar sem vélin var yfirbókuð. Ekki var leitað eftir sjálfboðaliðum, líkt og reglur gera ráð fyrir.
Stúlkan, í samfloti við ókunnugan mann í sömu sporum, þurfti að gera sér að góðu langt ferðalag til Íslands, með viðkomu í Kaupmannahöfn og Gautaborg. Alls tók ferð stúlkunnar, sem var peningalaus enda ekki búin undir langt ferðalag, um sólarhring.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir móðir stúlkunnar að henni hafi verið boðnar bætur í formi frírra flugferða. Hún treystir sér hins vegar ekki til þess að senda dóttur sína eina með vélum félagsins.