Vinstrihreyfingin - grænt framboð hefur hætt við að halda flokksráðsfund á Hótel Stykkishólmi vegna þess að hótelið býður
ekki upp á ásættanlegt aðgengi fyrir fatlaða. Fundurinn verður því haldinn í Reykjavík.
Flokksráðsfundurinn hafði verið boðaður í Stykkishólmi 26.-27. ágúst og var fyrirhugað að fundarmenn færu í framhaldinu í sumarferð um Snæfellsnes.
„Við könnun starfsmanna flokksins á aðstæðum í Stykkishólmi fyrir flokksráðsfund kom því miður í ljós að hótelið býður ekki upp á ásættanlegt aðgengi fyrir fatlaða þrátt fyrir loforð þar um. Aðgengi hefur alltaf verið ein af meginforsendum að baki vali á fundarstað fyrir Vinstrihreyfinguna – grænt framboð enda ekki hægt að halda því fram að allir félagar séu velkomnir ef svo er ekki,“ segir í tilkynningu til flokksmanna.
Fundurinn verður því haldinn á Hótel Loftleiðum. Sumarferðin verður einnig farin, en ferðaáætlun hefur sömuleiðis verið breytt.
Þess má geta að 27. ágúst fara Samfylkingarmenn í sumarferð í Stykkishólm og um austanvert Snæfellsnes.