Sauma þurfti sextán spor í handlegg tólf ára stúlku eftir að Rottweiler-hundur réðst á hana í Innri-Njarðvík í fyrrakvöld. Stúlkan var á gangi með vinkonum sínum þegar þær mættu hundinum, sem var á gangi ásamt konu.
„Hann æstist eitthvað upp þegar hann sá stelpurnar, reif sig lausan og hljóp aftan á þær,“ segir Birna Ósk Óskarsdóttir stjúpmóðir stúlkunnar.
„Hann hékk síðan aftan í henni, beit í hárið á henni og hékk í því. Að auki reif hundurinn fötin hennar,“ segir Birna Ósk.
Að sögn Birnu er stjúpdóttir hennar að auki marin og rispuð eftir árásina. Hún er á sterkum sýklalyfjum og undir nánu eftirliti læknis. „Læknarnir segja að hún verði að minnsta kosti tvær vikur að ná sér,“ segir Birna Ósk.
Hún segir stúlkuna hafa staðið sig einstaklega vel, en hún sé afar miður sín eftir atvikið. „Hún er ótrúlega seig miðað við hvað þetta var hrikalegt. Hún hefur mikið verið að hugsa um þetta. Þetta var svo mikið áfall,“ segir Birna Ósk. „Hún þarf langan tíma til að jafna sig.“
Maður í nágrenninu kom stúlkunum til bjargar og fór með þær inn á heimili sitt. Hann slapp naumlega undan hundinum.
Fjölskylda stúlkunnar hefur ekkert heyrt frá eiganda hundsins.
„Eigandinn hefur ekki haft samband við okkur. Hún lét okkur heldur ekki vita þegar þetta gerðist. Hjónin sem björguðu stelpunum kölluðu á eftir henni, en hún svaraði engu,“ segir Birna Ósk.
Lögreglu var strax skýrt frá atvikinu. Á vefsíðu Víkurfrétta kemur fram að fljótlega hafi verið haft uppi á hundinum, hann var tekinn í vörslu lögreglu og síðan var honum lógað.
„Við höfum bara frétt af því í gegnum fjölmiðla að hundinum hafi verið lógað. Við erum ekki búin að ákveða hvert framhaldið verður,“ segir Birna Ósk.