„Það er engin ástæða til annars en að vera bjartsýnn,“ segir Haraldur Freyr Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, en kjaraviðræður félagsins við samband íslenskra sveitarfélaga hefjast klukkan hálf ellefu í húsnæði ríkissáttasemjara.
„Við höfum lagt fram samningstilboð og nú á að ræða það. Við sjáum hvað setur,“ segir Haraldur. Stjórn félagsins mun síðan funda síðar í dag þar sem rætt verður um næstu skref og þróun mála.
Leikskólakennarar eru ósáttir við þau kjör sem þeim eru boðin og hafa boðað til verkfalls 22. ágúst, náist samningar ekki fyrir þann tíma. Leikskólakennarar hafa bent á að ekki sé ásættanlegt að þeim séu boðin sömu kjör og öðrum hafa verið boðin, þar sem leikskólakennarar hafi staðið í stað í launum.
Formaður samningarnefndar sveitarfélaganna, Inga Rún Ólafsdóttir, hefur sagt að kröfur leikskólakennara séu háar og að mikið beri á milli.