Evrópa er að eldast og horfa ríki álfunnar fram á íþyngjandi velferðarkerfi sem óvíst er að tekjuöflun næstu áratuga getur staðið undir. Öflug verkalýðsfélög eru í mörgum Evrópuríkjum og munu þau ásamt öðrum þjóðfélagshópum beita sér gegn niðurskurði hjá hinu opinbera og í velferðinni til að grynnka á skuldafjallinu.
Þetta er mat kanadíska fjármálasérfræðingsins Alex Jurshevski sem varar við því að mótmælaaldan í Suður-Evrópu sé aðeins „forsmekkurinn“ að því sem koma skuli í Evrópu.
Jurshevski ræddi við áhrifamenn í heimsókn sinni til Íslands í fyrra og varaði þá við þeirri neikvæðu keðjuverkun sívaxandi skuldabyrði og veikrar forystu í Evrópu sem hann telur nú að reynslan hafi sýnt að hafi verið aðvörunarorð í tíma töluð. Hann segir stöðuna grafalvarlega og bendir á að aldrei í hagsögunni hafi mörgum ríkjum tekist að vinna sig út úr miklum skuldavanda samtímis en í því efni má benda á að niðurskurður í einu landi getur komið niður á hagkerfi annars.
Áhættan eykst með hverjum deginum
Jurshevski, sem hefur lengi sérhæft sig í skuldavanda þjóðríkja, segir veika pólitíska forystu í Evrópu hafa dýpkað skuldakreppuna sem ekki sjái fyrir endann á.
„Ástandið í Evrópu er mjög alvarlegt. Áhættan eykst dag frá degi vegna þess að ekki hefur verið gripið til nauðsynlegra aðgerða. Yfirvöld hafa ekki komið á fót umgjörð til að taka með viðeigandi hætti á vandanum. Ástæðan er sú að skort hefur vilja hjá valdhöfum til að viðurkenna að bankar og fjárfestar sem lánuðu fé til umræddra ríkja verða að taka á sig hluta byrðanna.
Svo höfum við horft fram á mjög veika pólitíska forystu í Evrópu. Það er hluti vandans. Forystumenn hafa ekki viljað horfast í augu við nauðsyn þess að taka á skuldavandanum með festu.“
Bankarnir sleppa vel
Jurshevski segir byrðunum misskipt á milli fjármálastofnanna og almennings í aðgerðum Evrópusambandsins til að taka á skuldavandanum.
„Við [hjá fjármálafyrirtækinu Recovery Partners] höfum verið í sambandi við Grikki að undanförnu. Málið snýst um að lausnirnar sem hafa verið lagðar fram eru of sársaukafullar fyrir skattgreiðendur. Bankarnir sleppa nánast alveg.
Saga efnahagsmála segir okkur að þegar skuldakreppur bresta á verða lánveitendur og lántakar að deila byrðunum. Það er ekki hægt að leggja til lausn þar sem einn hópur er tekinn fram yfir annan en það hafa einmitt verið grundvallarmistökin hjá leiðtogum álfunnar.
Sú nálgun hefur einnig leitt til þess að vandinn er orðinn meiri en ella. Í Grikklandi, svo dæmi sé tekið, hefði verið rétt átt að afskrifa 20% skuldanna strax, í stað þess að lána ríkinu fé. Þá hefðu Grikkir geta endurskipulagt ríkisfjármálin og þokað efnahagsmálunum áfram. Það hefur aftur á móti ekkert áunnist með neyðaraðstoðinni. Hún hefur aðeins aukið á skuldavanda Grikkja. Nú lítur út fyrir að afskrifa þurfi 70% af skuldum gríska ríkisins.“
Hægir á efnahagskerfinu
Oft er rætt um að markvissasta leiðin fyrir þjóðríki til að vinna sig út úr skuldavanda sé að stækka hagkerfið svo skuldirnar verði hlutfallslega minni miðað við þjóðarframleiðslu.
Jurshevski bendir hins vegar á að alþjóðahagkerfið sé að hægja á sér.
„Við erum að horfa fram á skeið hægs hagvaxtar. Markaðirnir eru byrjaðir að átta sig á því að við erum að sigla inn í tímabil lítils hagvaxtar,“ segir Jurshevski.