Tófa réðist á fullfrískt lamb á túni

Refur í veiðihug.
Refur í veiðihug.

„Ég var að koma heim um hádegið og sá mikla styggð á kindum sem voru á túni skammt frá. Þegar betur var að gáð þá sá ég að eitthvert kvikindi var að eltast við kindurnar.“

Þetta segir Sigurjón Jóhannsson, bóndi á Valbjarnarvöllum í Borgarbyggð, í Morgunblaðinu í dag, en hann var vitni að því þegar tófa stökk á fullfrískt lamb á túninu við bæ sinn. Sigurjón segist hafa gripið skotvopn en dýrbíturinn náði að forða sér áður en færi gafst á skoti.

„Hún var búin að bíta það á hálsinn og í bóginn svo það fossblæddi úr því,“ segir Sigurjón og bætir við að lambið hafi lifað af árás tófunnar. Hann segist ekki muna eftir öðru eins atviki að tófa geri árás sem þessa um hábjartan dag. Að sögn var fólk í um 200 metra fjarlægð frá tófunni er hún lét til skarar skríða. „Ég er alveg gáttaður á því hvað þessi kvikindi eru orðin lítið mannfælin.“

Sigurjón segir tófuna mjög ágenga og slíkt hafi færst í vöxt að undanförnu. „Þetta verður óviðráðanlegt ef það er látið fara sem horfir,“ segir hann um fjölgun tófu á svæðinu. Hann segir brýnt að fjármagn sé aukið í refa- og minkaveiðar af hálfu ríkisins og að leitað verði á þekkt refagreni.


Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert