Tvennt stendur upp úr

Þjóðhátíðargestir í brekkunni
Þjóðhátíðargestir í brekkunni

Formaður Þjóðhátíðarnefndar, Páll Scheving Ingvarsson, segir tvennt standa upp úr að lokinni Þjóðhátíð í ár, annað gott en hitt slæmt.

Í yfirlýsingu sem hann hefur sent frá sér kemur fram að framkvæmd 14.000 manna hátíðar hafi gengið mjög vel þrátt fyrir erfið veðurskilyrði. Glæsilegri dagskrá sé vel skilað í nýrri umgjörð, það sé jákvæða hliðin.

„Sú neikvæða er að meðal gesta á hátíðinni leynast fársjúkir einstaklingar. Einstaklingar sem gera fólskulega árás á saklausa gesti. Árás sem opnar djúpt sár og skilur eftir ljótt ör á sálinni. Ófyrirgefanlegt. Þolendum og aðstandendum votta ég mína dýpstu samúð.

Milli átta og níuhundruð Vestmannaeyingar auk ríflega tvöhundruð einstaklinga af fastalandinu komu að undirbúningi og framkvæmd Þjóðhátíðar 2011.

Ég vil nota þetta tækifæri og þakka öllu þessu góða fólki fyrir frábært starf. Og minna á það í leiðinni að útilokað er að færa ábyrgð þeirra voðaverka sem framin voru í Herjólfsdal á heiðarlega, harðduglega og heilbrigða starfsmenn hátíðarinnar. Gerandinn skal bera ábyrgðina. Umræða og heilbrigð gagnrýni hjálpar og á fullan rétt á sér.

Það er undirrituðum hins vegar þungbært að sitja undir þeirri gagnrýni að hann stjórnist af gróðasjónarmiðum, styðji nauðgunarmenningu og sé skjól fyrir kynferðisbrotamenn, jafnvel framsett af fagaðilum.

Vanþekkingin verður ekki betur auglýst. Í þessu sambandi vil ég minna alla Íslendinga á að Þjóðhátíð Vestmannaeyja er fjölskylduhátíð samfélagsins sem haldin hefur verið samfleytt frá árinu 1874. Eyjamenn leiða dætur sínar í Herjólfsdal. Þeir eru ekki að leiða þær í gin ljónsins. Allt kapp er lagt á að tryggja öryggi gesta. Öryggisþátturinn er í stöðugri þróun og endurskoðun.

Að halda því fram Eyjamenn velji til að stjórna hátíðinni, menn sem stjórnist af gróðasjónarmiðum, styðji nauðgunarmenningu og eru skjól fyrir kynferðisbrotamenn, er óráðshjal. Það er niðurlægjandi fyrir Vestmannaeyinga að sitja undir jafn ömurlegu froðusnakki.

Virðingarfyllst

Páll Scheving Ingvarsson Formaður Þjóðhátíðarnefndar"

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert