„Þessar óvissu aðstæður og miklir erfiðleikar, ofan í handónýta ríkisstjórn hér á landi, eru þess vegna áhyggjuefni fyrir okkur sem þjóð. Því einmitt við þessar aðstæður þurfum við á alvöru stjórnvöldum að halda,“ segir Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á heimasíðu sinni í dag og vísar þar til alvarlegrar stöðu efnahagsmála beggja megin Atlantshafsins. Í Evrópusambandinu annar vegar og Bandaríkjunum hins vegar.
Varar hann ekki síst við því að efnahagssamdráttur á heimsvísu kunni að leiða til þess að fólk haldi að sér höndum og leiti frekar í ódýrari vörur. Það kunni að verða til verðlækkana á útflutningsvörum Íslendinga og þar með koma sér illa fyrir íslenskt efnahagslíf. Þá gæti orðið erfiðara en þegar hefur verið fyrir íslenska ríkið og aðra hérlenda aðila að sækja sér lánafyrirgreiðslur á alþjóðlegum mörkuðum.
Einar sakar sitjandi ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs um að dýpka kreppuna, vera ofurseld sundurlyndi og einkum hafa áorkað því að skapa pólitíska óvissu í landinu ofan á annað. Ríkisstjórnin ráði ekki við það verkefni að koma íslensku efnahagslífi aftur í samt lag.
„Eins og hér hefur verið bent á, leiðir stjórnarstefnan einfaldlega til þess að samdrátturinn verður dýpri og lengri en þörf hefði verið á.Því veldur sá vítahringur sem ríkisstjórnin hefur komið okkur í,“ segir Einar.
Heimasíða Einars K. Guðfinnssonar