Óðinn Þórarinsson, vatnamælingamaður hjá Veðurstofu Íslands, segir að líkur á hlaupi í Skaftá fari enn minnkandi eftir nóttina.
„Leiðnin í ánni er enn há en hún sýnir merki þess að hún hafi minnkað og við hefðum í raun, á þessum tímapunkti, átt að vera farin að sjá aukið vatnsmagn á mælum við Sveinstind.“
Óðinn segir jafnframt að líkur séu til þess að aukið grugg í vatninu og órói á mælum sé í raun eftirstöðvar fyrra hlaups. „Við viljum ekki afskrifa nýtt hlaup alveg ennþá. Það kemur hins vegar oft svona órói fram og grugg undir lok hlaupa. Við gætum því enn átt von á hlaupi eða þá að það sem við sjáum á mælunum sé í raun katlarnir að tæma sig eftir fyrra hlaupið. En líkurnar á nýju hlaupi hafa minnkað mikið, það er ljóst.“