Jón Gnarr borgarstjóri tefldi í morgun vígsluskák á skákmaraþoni sem fram fer í Ráðhúsi Reykjavíkur. Jón tefldi við Doniku Kolica sem sigraði hann eftir harða baráttu.
Donika Kolica er 14 ára gömul og talsmaður krakkanna sem standa fyrir maraþoninu. Hún sagði að Jón Gnarr hefði teflt vel og hann hefði verið peði yfir um tíma. Hún lét það ekki á sig fá og náði að snúa á hann og sigra. Donika sagði greinilegt að Jón Gnarr kynni sitthvað fyrir sér í skáklistinni.
Tilgangur maraþonsins er að safna fé fyrir Rauða krossinn, sem berst nú upp á líf og dauða við hungursneyðina í Sómalíu. Maraþonið stendur yfir í allan dag.
Donika sagði áður en mótið hófst að hún vonaði að sem allra flestir kæmu í Ráðhúsið, taki skák og láti gott af sér leiða. „Margt smátt gerir eitt stórt,“ sagði Donika, sem ættuð er frá Kosovo, talar sex tungumál.
Mörg af efnilegustu ungmennum Íslands, á aldrinum 6-18 ára, tefla við gesti og gangandi. Fyrir skákina má greiða upphæð að eigin vali. Allir peningar sem safnast fara í að kaupa vítamínbætt hnetusmjör, til að hjúkra hungruðum börn.