Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, hafnar því að Bankasýsla ríkisins hafi ekki haft úr nægum fjármunum að spila til þess að sinna skyldum sínum með viðunandi hætti. Þetta kom fram í fréttum Ríkisútvarpsins nú fyrir stundu.
Elín Jónsdóttir hætti í vikunni sem forstjóri Bankasýslunnar, og vísaði því til skýringar í inngangsorð ársskýrslu fyrir árið 2010.
Fjármálaráðherra gefur lítið fyrir umkvörtunarefni Elínar. Hann telur ekki hægt að halda því fram að ekki hafi verið hægt að reka stofnunina með fullnægjandi hætti.
Í inngangsorðum téðrar skýrslu segir meðal annars að fjármögnun hafi ekki gefið svigrúm fyrir uppbyggingu Bankasýslunnar árið 2010 að því marki sem forstjóri taldi heppilegt. Hafi því verið lýst af hálfu stofnunarinnar þegar á fyrsta starfsári að vegna núverandi og fyrirsjáanlegra verkefna væri nauðsynlegt að fjölga starfsmönnum og þá þyrfti Bankasýslan að geta leitað til utanaðkomandi sérfræðinga.
Fjármögnunin hafi hins vegar ekki gefið svigrúm fyrir þessa uppbyggingu. Þá hefði gætt þeirrar tilhneigingar að aðrar leikreglur ættu að gilda um Landsbankann en aðra banka, en hann er í meirihlutaeigu ríkisins. Dæmi um þetta væri frumvarp til upplýsingalaga og þá stöðu að laun bankastjóra Landsbankans eru ákvörðuð af kjararáði. Ljóst sé að laun bankastjóra Landsbankans standist ekki samanburð og sé það óviðunandi.
Steingrímur sagði við Ríkisútvarpið að staðreyndin sé sú að enga peninga sé að sækja í ríkissjóð. Hver króna sem þaðan kæmi væri tekin að láni.