„Það mátti ekki miklu muna að illa færi,“ segir Guðmundur Ingason, varðstjóri lögreglunnar á Hvolsvelli, en lögreglan vinnur nú að rannsókn á tildrögum þess að rúta með tékkneskum ferðamönnum valt ofan í Blautulón á Fjallabaksleið nyrðri, en Blautulón eru smávötn suðvestur af fjallinu Gretti.
Guðmundur sagði að tekin yrði formleg skýrsla af fararstjóra og ökumanni rútunnar, en áður þyrfti að útvega túlk því fólkið talaði misgóða ensku.
Rauði krossinn opnaði fjöldahjálparstöð í Vík í dag og fór fólkið þangað þar sem það fékk hlý föt, en allur farangur fólksins var í rútunni sem nú liggur á botni Blautulóna. Fólkinu var m.a. gert kleift að hringja heim til Tékklands og segja ættingjum og vinum frá því sem gerðist. Búið er að útvega ferðamönnunum gistingu á hótelum í Vík í nótt.
Kafarar eru á leið að Blautulónum, en vatnið er mjög djúpt. Þeir ætla að freista þess að ná rútunni upp úr vatninu.
Guðmundur sagði að í ljós hafi komið að 11 af þeim 22 sem voru í hópnum voru í rútunni þegar hún valt ofan í vatnið. Hinir voru á bakkanum og horfðu á rútuna hverfa í vatnið.
„Eðlilega eru margir í sjokki yfir því sem gerðist,“ sagði Guðmundur. „Við höfum reynt að taka vel á móti fólkinu og hlúa vel að því. Þegar eitthvað svona gerist standa Íslendingar sig jafnan vel.“
Blautulón eru á leiðinni af Fjallabaki Nyrðra að Skælingum. Vegurinn liggur í vatninu að hluta og því er betra að fara varlega. Gæta þarf þess að fara ekki of langt frá bakkanum, því vatnið snardýpkar.