Rúta valt ofan í Blautalón

Rútan var á Fjallabaksleið nyrðri.
Rútan var á Fjallabaksleið nyrðri. Rax / Ragnar Axelsson

Litlu munaði að illa færi fyrr í dag þegar rúta full af tékkneskum ferðamönnum lenti ofan í Blautulóni á Fjallabaksleið nyrðri. Tékkarnir, sem eru 22 talsins, komust allir á þurrt af sjálfsdáðum og gátu hringt eftir aðstoð.

Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsinga- og kynningarfulltrúi Landsbjargar, segir að allir í bílnum hafi verið útlendingar, líka bílstjórinn. Tilkynning um slysið barst kl. 17:16, en hópurinn gat strax látið vita um óhappið. Allir í rútunni lentu í lóninu, en komust blautir og kaldir í land.

Voru björgunarsveitir frá Vík, Klaustri, Skaftártungu og Álftaveri kallaðar út en Flugbjörgunarsveitin Hellu var fyrst á staðinn en hún var í hálendisvakt björgunarsveita á svæðinu þegar kallið kom.

Samkvæmt fyrstu fregnum virðist sem hópurinn hafi ekki haldið saman eftir atvikið en 11 manns komust í kofa í Skælingum, sjö voru saman í hóp við Blöndulón og fjórir annarsstaðar á svipuðum slóðum. Er fólkið bæði blautt og kalt.

Ferðafólkinu verður ekið til Víkur í Mýrdal þar sem sjálfboðaliðar Rauða krossins á staðnum taka á móti því. Verið er að vinna í því að skoða björgun á bílnum, en ekki er ljóst á hvaða dýpi hann er.

Í tilkynningu frá lögreglunni á Hvolsvelli segir að talsverðan tíma hafi tekið að fá viðeigandi upplýsingar, nákvæma staðsetningu og atburð.  Hálendisgæsla Landsbjargar var send áleiðis en vísbendingar voru um að þetta væri á svæðinu við Fjallabaksleið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert