Segir ekki satt um atvikið

Flugvallarsvæðið í Billund.
Flugvallarsvæðið í Billund.

Móðir 14 ára stúlkunnar sem varð eftir í Billund, vegna yfirbókunar í flug Iceland Express, segir Heimi Má Pétursson, upplýsingafulltrúa fyrirtækisins, ekki hafa farið með rétt mál þegar hann skýrði sjónarmið fyrirtækisins við fjölmiðla.  

Stúlkan var önnur tveggja farþega sem varð að hverfa frá brottfarahliði félagisns í Billund, líkt og greint var frá í Morgunblaðinu í gær.

Í samtali við Morgunblaðið í gær sagði Heimir Már að asa starfsmanns hjá samstarfsfyrirtæki Iceland Express í Billund hefði verið um að kenna. Téður starfsmaður hafi ólmur viljað komast í sumarfrí og því hafi tveimur síðustu farþegunum verið vísað frá. „Við höfum kvartað við þjónustuaðilann yfir þessari framkomu sem er í algerri andstöðu við starfsreglur Iceland Express. Við þurfum auðvitað að íhuga það hvort við höldum áfram viðskiptum við félag sem hagar sér með þessum hætti,“ sagði Heimir.

Móðir stúlkunnar segir Heimi Má annað hvort vera að ljúga, eða að hann viti hreinlega ekki betur. „Hún var mætt þarna fyrst og var ekki síðust inn í vélina,“ segir hún. Stúlkan hafði raunar komið á flugvöllinn nokkrum klukkustundum fyrir flug, þar sem hún var samferða öðrum hópi sem átti flug með öðru flugfélagi fyrr um daginn. Hún hafi fengið aðstoð við að finna rétt brottfararhlið og beðið þar í langan tíma. Nafn hennar hafi verið kallað upp í kallkerfi flugvallarins, en vegna tungumálaerfiðleika hafi hún ekki brugðist við heldur ákveðið að sitja sem fastast. Móðir stúlkunnar segir þetta renna stoðum undir að það hafi verið ákveðið með töluverðum fyrirvara hverjir færu ekki með.

„Mig langar líka að vita hvort áhöfnin vissi ekkert um þetta,“ spyr móðirin. „Hafði hún engan áhuga á að vita hverjir voru skildir eftir? Ef áhöfnin skiptir sér ekkert af þessu eru það mjög skrítin vinnubrögð. En ef hún vissi af þessu eru það ennþá skrítnari vinnubrögð.“

Í Morgunblaðinu í dag segir Heimir Már flugþjónustuaðilann bera ábyrgð á því þegar ólögráða einstaklingur sé skilinn eftir á flugvelli. Áhafnir félagsins beri einungis ábyrgð á öryggi um borð.

Stúlkunni voru boðnar þrjár ferðir fram og til baka til Íslands í skaðabætur. Þar sem hún býr hjá móður sinni í Noregi nýtast ferðirnar hins vegar ekki þar sem hún þyrfti að fara í gegnum Danmörku. Iceland Express hafi ekki getað boðið upp á að henni yrði fylgt í tengiflugið. Eitt gjafabréf hefur verið notað til þess að bóka ferð, en það flug hefur enn ekki verið farið líkt og skilja mátti á fréttum í gær.

„Það er ekki það að ég treysti ekki flugfélaginu yfir höfuð,“ segir móðir stúlkunnar. Hún hafi hins vegar enga tryggingu fyrir því að sagan endurtaki sig ekki.  

Hún segir jafnframt að verulega vanti upp á að viðskiptavinir geti rætt umkvörtunarefni sín við starfsmenn félagsins. Hefði það verið auðveldara hefði hún líklega ekki farið með sögu sína til fjölmiðla. „Mér finnst ömurlegt að þurfa að kvarta yfir flugfélaginu sem í raun veitir samkeppnina. En ef þeir hefðu staðið sig betur hefði ég ekki þurft þess,“ segir hún og bendir á að nú sé tæpur mánuður liðinn frá því að atvikið átti sér stað. Viðmótið síðan þá hafi ekki verið upp á marga fiska og hún því ekki talið sig eiga annarra kosta völ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert