Jón G. Sigurðsson flugmaður segir að vestari ketill Skaftárkatla hafi lagst mikið saman, en litlar breytingar sé að sjá á eystri katlinum. Hann segist þó eiga von á hlaupi úr honum fyrr en seinna.
Jón flaug síðast fyrir viku yfir Grímsvötn og Skaftárkatla. Mjög góðar aðstæður voru til að skoða katlana í dag.
„Vestari ketilinn hefur lagst mun meira saman frá því fyrir viku og má draga þá ályktun að hann hafi verið að hlaupa áfram í liðinni viku og gefið þessa auknu leiðni fyrrihluta vikunnar.
Eystri ketillinn er enn í líkingu við það sem hann var fyrir viku nema hvað svo virðist sem hækkað hafi í honum og ummál brotalínu hans stækkað, þá eru greinileg merki um að miðja hans hafi verið að brotna upp ef dæma má af því hversu kurlaður ísinn er í miðju hans,“ segir Jón, sem segist vera þeirrar skoðunar að hlaup komi úr eystri katlinum fyrr en seinna.