Mörg þúsund manns taka þátt í gleðigöngu Hinsegin daga í ár, en hún hófst kl. 14 frá Vatnsmýrarvegi. Veður er mjög gott og allar aðstæður göngufólks og gesta hinar bestu.
Jón Gnarr borgarstjóri mætti í gönguna í kjól frá makedónska hönnuðinum Marjan Pejoski, en hann hannaði hinn víðfræga svanakjól Bjarkar Guðmundsdóttur söngkonu. Í fréttatilkynningu segir að Jón verði í hlutverki fröken Reykjavíkur.
Gengið er eftir Sóleyjargötu, Fríkirkjuvegi og Lækjargötu og fram hjá Arnarhóli. Að göngunni lokinni hefst hinsegin hátíð við Arnarhól. Meðal skemmtikrafta eru Páll Óskar, Lay Low, The Esoteric Gender, Never the Bride, Gunni og Felix, MaryJet, Bloodgroup og Hera Björk.