„Ekki er ósennilegt að hér glitti í „tyranny of the majority“, sem er helsti áhættuþáttur beins lýðræðis og einkenni netsins,“segir Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur, en hann gagnrýnir harðlega tillögur Stjórnlagaráðs að nýju kosningakerfi.
Haukur Arnþórsson skrifar í grein sinni í Morgunblaðinu í dag að öllum megi vera ljóst að staða almennings á Íslandi sé misjöfn og nefnir sem dæmi að laun á landsbyggðinni séu að meðaltali um helmingi lægri en á Reykjavíkursvæðinu og að menntunarmunur sé mjög mikill en menntun sé lykilbreyta í nútímasamfélögum.
Segir hann að eignastaða almennings á landsbyggðinni sé miklu veikari en á höfuðborgarsvæðinu enda séu skatttekjur hvers einstaklings til sveitarfélaga lágar miðað við höfuðborgarsvæðið.
Haukur telur að Stjórnlagaráð hafi blandað saman jöfnu vægi atkvæða við kjördæmamál en það séu í raun gerólík mál.
„Kjördæmakerfi eru meðal annars mynduð til að tryggja að íbúar sem búa við félagslega ólík skilyrði eftir búsetu haldið hlut sínum við samfélagslega ákvarðanatöku,“ segir Haukur.
Haukur segir að samkvæmt tillögum ráðsins og ef Alþingi heimilar að setja hámarkskvóta á kjördæmakjörna þingmenn geti komið til þess í versta tilfelli að kjósendur norðvestur-, norðaustur-, og suðurkjördæma fái 15 þingmenn en Reykjavík og Kraginn 48 þingmenn. Jafnt vægi þýði á hinn bóginn að 23 þingmenn komi frá landsbyggðarkjördæmunum þremur og 40 þingmenn frá Reykjavík og Kraganum samanlagt.
„Stjórnlagaráði hefur einfaldlega orðið á í messunni í tillögugerð sinni,“ segir Haukur.
„Það má hugsa sér að það brjóti gegn Evrópureglum, sem eru ákveðnar varðandi rétt „rural“ svæða og einnig er hugsanlegt að slíkar kosningar séu kæranlegar til alþjóðlegra dómstóla,“ segir Haukur.